Makríll finnst í miklum mæli um allt Noregshaf að því er fram kemur í grein á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Tvö norsk skip hafa verið í makrílleiðangri á svæðinu í tvær vikur. Í meira en helmingi toganna hafa þeir fengið 500 kíló af makríl eða meir eftir 30 mínútna tog.
Tvö uppsjávarskip, Libas og Eros, taka þátt í leiðangrinum. Leif Nøttestad leiðangursstjóri segir á heimasíðu norsku hafró að það sé hreint með ólíkindum að svona mikið veiðist á föstum stöðvum sem fyrirfram séu valdar af handahófi, bæði í Noregshafi og meðfram strönd Noregs.
Leif Nøttestad segir einnig að margir árgangar makríls séu mjög sterkir. Meðal annars sé 2010 árgangurinn, 3ja ára makríll, sérstaklega stór. Þá sé fiskurinn á norðvesturhluta svæðisins vel haldinn og hafi nóg æti.