Máni II ÁR hefur að undanförnu stundað netaveiðar á háfi við suðurströndina.  Veiðarnar hafa litlu skilað til þessa að sögn Hauks Jónssonar eiganda Mána, farið upp í eitt og hálft tonn en suma dagana hefur nánast ekkert fengist.

Á vef LS segir frá því að við vitjun í gærmorgun hafi komið óvenjumikið í netin þar sem makríll hafði gert sig þar heimakominn.  Hinn mesti ófögnuður að greiða þetta úr að sögn sjómanna um borð.  Makríllinn var því ekki boðinn velkominn, en hann hlustar víst ekki á hárfína stjórnun veiðanna sem byggð er á vísindalegri ráðgjöf í landi, eins og þeir orðuðu það á Mána.

Líklegar lóðningar sáust við Ölfusárósa þegar kveikt var á asdikinu.  Sjómenn sögðu það freistandi að setja makrílbúnað um borð og kanna hvort makríllinn væri veiðanlegur.

Í spjalli við Hauk kom fram að óvenju mikið súlukast hefði verið undanfarna daga allt frá Knarrarósi að Þorlákshöfn.  Súlan virðist safna sér saman og leggja síðan í árás, en ekki er vitað að annar fugl nái að veiða makrílinn.  Haukur sagðist ekki muna eftir að hafa séð jafnmikið af súlu á þessum slóðum, nema ef vera skildi

þegar síld var á svæðinu fyrir um 20 árum.