Áhöfnin á Hugin VE er  með sjópokana klára og tilbúin að halda í makrílleit um leið og grænt ljós verður gefið á veiðarnar. Fregnir eru af makríl suður af landinu, t.a.m. á Papagrunni og Stokksnesgrunni. Huginn er jafnan með fyrstu skipum að hefja makrílveiðar meðan stærsti hluti flotans hefur dregið það að hefja veiðar fram eftir

Huginn kom til Vestmannaeyja eftir 7,2 m lengingu í Póllandi í nóvember í fyrra. Skipið ber nú allt að 600 tonn og er útbúið til að sjókæla aflann og landa honum jafnt ferskum sem frystum.

Guðmundur Huginn Guðmundsson skipstjóri segir að enn sé beðið eftir leyfi Fiskistofu til að hefja veiðarnar en von sé á því hvað úr hverju.

„Um leið og það berst þá leggjum við í hann. Við byrjum á því að fara eitthvað suður eftir til leitar, sunnan við Eyjar. Það er ómögulegt að segja hvar við berum niður. Þegar svona leit stendur yfir er ekki verið að fara í einhverja sérstaka átt. Við þurfum þó að styðjast við eitthvað, eins og hitastig og hitaskil í sjónum.“

Huginn hafði heyrt að trollbátarnir hefðu orðið varir við makríl á Papagrunni og Síðugrunni meðal annars. Erfitt sé að henda reiður á hvort mikið magn sé á ferðinni en sjómennirnir hafa séð vöður vaðandi á þessum slóðum.

Reglugerð á næstu dögum

„Makrílfrumvarpið fór í gegnum þingið síðastliðinn föstudag og nú er málið að væflast einhvers staðar í kerfinu. Ég reikna með að það geti liðið tveir til þrír dagar áður en gefið verður út leyfi. En við erum klárir að fara um leið og það kemur.“

Lögin voru samþykkt á Alþingi 19. júní síðastliðinn og nú er beðið reglugerðar frá sjávarútvegsráðuneytinu, sem væntanlega verður gefin út á allra næstu dögum. Fljótlega eftir að hún er komin getur Fiskistofa birt bráðabirgðaúthlutun þar sem væntanlega verður úthlutað 80 prósentum af heildaraflamarkinu. Nokkrum vikum síðar má síðan búast við heildarúthlutun, eftir að Fiskistofa hefur farið yfir athugasemdir sem kunna að berast.

Ufsi í makríláti

Birgir Þór Sverrisson, annar tveggja skipstjóra á Vestmannaey VE, segir að menn hafi orðið varir við makríl. Hann hafði meira að segja séð makríl fyrir um tíu dögum á Papagrunni svo nokkuð ljóst virðist að hann er kominn inn í íslenska lögsögu.

Bergey VE var á leið til Eyja í gærmorgun með um 72 tonn, mest af ýsu, eftir fimm daga túr í Lónsbugt og Skeiðarárdýpi þar sem tekið var í einn gám af karfa. Ragnar Waage skipstjóri segir þetta hafa verið rólegri túr en oft áður. Ýsa hafi aðeins gefið sig í Lónsbugtinni. Þar var rétt um sólarhringsveiði sem síðan datt niður.

„Við bíðum bara eftir því að síldin fari að hrygna og ýsan leiti í hana. Fyrir ári vorum við í mokveiði þarna á Stokksnesgrunni og fylltum okkur af ýsu á einum sólarhring. Við erum að bíða eftir þannig túr. Við verðum varir við síld mjög víða, jafnt á Papagrunni og Stokksnesgrunni en við sjáum að hún á enn nokkuð í land með hrygningu. Á Stokksnesgrunni sáum við ufsa í makríláti og það var fyrsti makríllinn sem ég sé á þessu ári. Svo veit ég að Steinunn var úti við Ingólfshöfða og fékk þar nokkra makríla,“ segir Ragnar.