Rannsóknarleiðangur Norðmanna á útbreiðslu og stærð makríls er hálfnaður. Rannsóknirnar eru hluti af samstarfi við Íslendinga og Færeyinga. Norðmenn hafa verið með tvö skip á sínu hafsvæði og hafa fundið jafna dreifingu á makríl í veiðanlegum þéttleika.
Norsku fiskiskipin Brennholm og Vendla hafa verið farkostir norsku vísindamannanna og var mesta veiðin vestarlega og í miðju Noregshafi.
Makrílveiðibáturinn Finnur Fríði hefur verið færeyskum vísindamönnum til ráðstöfunar sem hófu leiðangurinn í suðvesturhluta færeysku lögsögunnar 11. júlí eins og rannsóknarskipið Árni Friðriksson, sem hóf leiðangurinn úti fyrir norðurströnd Íslands.
Að meðaltali er afli Brennholm og Vendla yfir eitt tonn af makríl í togi . Togað er í 30 mínútur á fimm hnúta hraða á 0-30 metra dýpi.
Frá 1. til 13. júlí fengu bátarnir makríl í hverju einasta togi. Þetta bendir til jafnrar dreifingar, veiðanlegs þéttleika og umtalsverðrar útbreiðslu á makríl nú þegar.
Makríllinn var almennt feitur og í góðu ástandi. Stóru árgangarnir í veiðinni eru frá 2010 og 2011 en einnig var talsvert um árganga frá 2005 og 2006. Einnig fengu norsku bátarnir góðar bergmálsdýptarmælingar á kolmunna á 100-200 metra dýpi.
Fjallað er um þetta á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.