Á fyrstu 10 mánuðum þessa árs hafði makríll frá Íslandi verið seldur til 36 landa á móti 28 á sama tímabili í fyrra.
Útflutningsverðmæti var þá komið í 20,7 milljarða, sem er 1,6 milljarði hærra en á tímabilinu janúar - október 2013. Verðið hefur aðeins gefið eftir er nú 5% lægra en það var í fyrra.
Þetta kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda og er byggt á tölum Hagstofunnar.
Eins og 2013 var mest selt til Rússlands eða um 36 þús. tonn, sem var 31% heildarútflutningsins, til Hollands fóru 30 þús. tonn og til Nígeríu rúm 12 þús. tonn. Samanlagt til þessara þriggja landa hafa farið 68% heildarútflutningsins. Því má bæta við til útskýringar að megnið af makrílnum sem skráður er til Hollands fer áfram til Afríku, einkum Nígeríu.