Það líður að lokum makrílvertíðar. Lokið var við að landa 930 tonnum úr Margréti EA í Neskaupstað í morgun og var þá hafist handa við að þrífa fiskiðjuverið hátt og lágt.

Beitir NK og Börkur NK eru enn að veiðum en Margrét EA, Vilhelm Þorsteinsson EA og Barði NK hafa lokið makrílveiðum á vertíðinni. Öll þessi skip hafa verið í veiðisamstarfi og hefur það gengið afar vel í alla staði.

Rætt er við Grétar Örn Sigfinnsson rekstrarstjóra útgerðar Síldarvinnslunnar á heimasíðu fyrirtækisins og hann spurður hvernig menn mætu makrílvertíðina.

„Þessi vertíð hefur gengið vel. Menn voru ekkert sérstaklega bjartsýnir í upphafi en það hefur svo sannarlega ræst vel úr þessu. Veiðisamstarf skipanna skiptir miklu máli í þessu sambandi enda hefur oft verið býsna langt að sækja makrílinn. Makrílkvótinn er að klárast og menn mjög sáttir. Nú er norsk-íslenska síldin næst á dagskrá hjá uppsjávarveiðiskipunum en ráðgert er að sú vertíð hefjist um mánaðarmót eða upp úr mánaðamótum. Það ríkir bjartsýni varðandi síldarvertíðina enda hefur orðið vart við fullt af síld hér úti af Austfjörðunum,” sagði Grétar Örn.