Grænlenska landsstjórnin hefur ákveðið að makrílkvótinn við Austur-Grænland verði 85 þúsund tonn í ár, að því er fram kemur á vef grænlenska útvarpsins .

Kvótanum verður skipt þannig að 55 þúsund tonn fara til fyrirtækja sem gera út grænlensk uppsjávarskip.

Það sem eftir er, 30 þúsund tonn, fara til rótgróinna útgerða og/eða fyrirtækja sem geta sýnt fram á að þau hafi kennt grænlenskum áhöfnum uppsjávarveiðar.

Landsstjórnin telur mikilvægt að grænlensk skip njóti forgangs við veiðarnar og vill stuðla að uppbyggingu á uppsjávarflota landsins. Engu að síður er gert ráð fyrir að grænlensku fyrirtækin geti leigt erlend skip til veiða á ákveðnum hluta af því sem þau fá úthlutað á meðan unnið er að uppbyggingu flotans.

Á síðasta ári veiddu grænlensk skip vel innan við helming af þeim makríl sem fékkst við Austur-Grænland, eða um 32 þúsund tonn af um 79 þúsund tonna heildarafla. Landsstjórnin væntir þess að grænlensk skip veiði stærri hluta af makrílkvóta Grænlands í ár.