Grænlenska landsstjórnin hefur ákveðið að makrílkvóti við Austur-Grænland á þessu ári verði 85.000 tonn. Þá verður gefinn út 20.000 tonna síldarkvóti og 15.000 tonna kolmunnakvóti vegna tilraunaveiða á þessum tegundum.
Í frétt á vef landsstjórnarinnar er lögð áhersla á að veiðum á uppsjávartegundum við Grænland sé stýrt með þeim hætti að þær komi sem flestum í samfélaginu til góða, annars vegar hvað atvinnu varðar og hins vegar hvað tekjur varðar í formi gjalda og skatta til hins opinbera. Jafnframt hefur verið ákveðið að engin ný félög fái kvóta í ár.
Makrílkvótanum verður skipt í þrjá flokka. Í fyrsta flokknum eru 35.000 tonn sem úthluta skal til útgerða grænlenskra skipa. Í öðrum flokknum eru 20.000 tonn sem úthluta skal til erlendra skipa sem útgerðir samkvæmt flokki eitt taka á leigu. Og í þriðja flokknum eru 30.000 tonn sem úthluta skal til erlendra skipa sem tekin eru á leigu af grænlenskum fyrirtækjum sem ekki eiga sjálf makrílveiðiskip.
Makrílkvótinn við A-Grænland á síðasta ári var 85.000 tonn eins og nú, en aðeins tókst að veiða um 30.000 tonn.