Grænlensk stjórnvöld hafa gefið út 10.000 tonna makrílkvóta til tilraunaveiða við Vestur-Grænland. Hann kemur til viðbótar áður útgefnum makrílkvóta við Austur-Grænland upp á 100.000 tonn.

Þær útgerðir sem hafa leyfi til makrílveiða við Austur-Grænland og hafa áhuga á að reyna fyrir sér við Vestur-Grænland geta hafið þær veiðar nú þegar.

Í frétt á grænlenska vefnum Sermitsiaq AG segir að ástæðan fyrir útgáfu tilraunakvóta við Vestur-Grænland sé sú að borist hafi beðnir frá nokkrum útgerðum sem leyfi hafa til makrílveiða við Austur-Grænland um að fá að nýta umframafkastagetu sína til veiða vestan við Grænland.

Náttúrufræðistofnun Grænlands bendir á að makríllinn fylgi sömu afstraumum og þorskur og aðrar tegundir frá A-Grænlandi til V-Grænlands og því séu líkindi til þess að makríl sé einnig að finna vestan megin við landið. Stofnunin er því áhugasöm um að fram fari tilraunaveiðar þar.