Atvinnuvegaráðuneytið sendi Fiskistofu bréf síðastliðinn föstudag þar ráðuneytið segir tilfærslur á krókaaflamarki frá smábátum til aflamarksskipa í skiptum fyrir makríl hafi verið ólögmætar.
Ráðuneytið mælist til þess að Fiskistofa skoði hvort afturkalla eigi þær tilfærslur, og má skilja af bréfinu að ráðuneytið reikni með því að Fiskistofa ógildi þessar millifærslur.
Landssamband smábátaeigenda (LS) vakti athygli á því í síðustu viku að veiðiheimildum krókaaflamarksbáta hafi verið breytt í aflamark „með endalausum tilfærslum á makríl.“
Þá sendi stjórn LS frá sér yfirlýsingu á sunnudag þar sem þess er krafist „að sjávarútvegsráðherra gefi Fiskistofu nú þegar fyrirmæli um að ógilda allar tilfærslur veiðiheimilda úr krókaaflamarki í aflamark þar sem makríll er notaður sem skiptimynd.“
Rætt hefur verið um málið á Bylgjunni í gærmorgun og í Fréttablaðinu í dag.
Í bréfi ráðuneytisins, sem Fiskifréttir hafa undir höndum, er tekið fram að ákvörðun um flutning aflamarks sé stjórnvaldsákvörðun, og í stjórnsýslulögum sé heimild til þess að afturkalla stjórnvaldsákvarðanir. Ráðuneytið mælist til þess að Fiskistofa skoði hvort beita eigi þeirri heimild, eða með öðrum orðum hvort ógilda eigi tilfærslur á bolfisk í krókaaflamarki yfir á aflamarksskip í skiptum fyrir makríl.
Með lögum um makrílveiðar frá í sumar var ákveðið að skipta skipum á makríl í tvo flokka, A-flokk uppsjávarskipa og B-flokk handfærabáta. Þessi skipting er ekki alveg sú sama og skiptingin í aflamarksskip og krókaaflabáta, og svo fór að nokkrir aflamarksbátar lentu í B-flokki og nokkrir krókaaflamarksbátar í A-flokki.
Það opnaði möguleikann á endalausri hringekju með makríl, þar sem fyrirtæki gátu fært makrílheimildir fram og til baka á milli báta í skiptum fyrir botnfisk þannig að botnfiskheimildirnar færðust úr krókaaflamarkskerfinu í aflamarkskerfið.
Fiskistofa stöðvaði þessar millifærslur í síðustu viku en hefur ekki enn brugðist við bréfi ráðuneytisins, að öðru leyti en því að hún tilkynnti í gær að lögmæti flutninga á aflamarki í makríl, „einkum svonefnd jöfn skipti á makríl og botnfiski,“ sé til skoðunar og afgreiðsla umsókna um slíka flutninga muni „fyrirsjáanlega tefjast.“