Þessa dagana stendur yfir í Þórshöfn í Færeyjum samráðsfundur þeirra sem aðild eiga að samningnum um stjórn makrílveiða í NA-Atlantshafi, þ.e. Færeyja, Noregs og Evrópusambandins. Ísland, Rússland og Grænland standa utan við þennan samning, sem kunnugt er.

Samningurinn, sem gerður var í fyrra og gildir í fimm ár, kveður á um að fylgja eigi líffræðilegri ráðgjöf við ákvörðun heildarafla. Það getur hins vegar verið teygjanleg skilgreining. ESB vill fylgja ströngustu ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins en Norðmenn vilja teygja sig eins langt og hægt er innan rammans. Í frétt á vef færeyska útvarpsins segir að Færeyingar vilji fara bil beggja.

Á fundinum verður tekin fyrir ný skýrsla Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um endurskoðun á veiðiráðgjöf fyrir makrílstofninn í NA-Atlantshafi en í henni er lögð til minni veiði en búið var að ákveða síðastliðið haust fyrir árið 2015.

Endurskoðunin var gerð að beiðni samningsaðilanna þriggja, væntanlega í þeirri von að hægt yrði að hækka veiðiráðgjöfina. Niðurstaðan ICES er sú að ef stuðla eigi að  viðvarandi hámarksafrakstri stofnsins skuli lækka fiskveiðidánarstuðulinn úr 0,25 í 0,22. Það þýðir að minna verði veitt úr stofninum.

Í fyrrahaust urðu áðurnefndar þjóðir ásáttar um 1.054.000 tonna heildarafla á árinu 2015, sem skiptist þannig að þessar þjóðir taka 84,4% kvótans en skilja eftir 15,6% fyrir aðra (Íslendinga, Rússa og Grænlendinga).

Íslensk stjórnvöld munu væntanlega taka ákvörðun um makrílkvóta Íslands fyrir árið 2015 með hliðsjón af því hvað ákveðið verður á fundinum í Færeyjum núna.