Mun meiri kraftur hefur verið í veiðum Færeyinga á makríl og síld það sem af er þessu ári en á sama tíma í fyrra.

Samkvæmt tölum færeyska fiskveiðieftirlitsins síðastliðinn fimmtudag var búið að landa rúmum 81.000 tonnum af makríl á vertíðinni samanborið við 52.000 tonn á sama tíma á síðasta ári Síldaraflinn var í síðustu viku kominn í rúm 43.000 tonn á móti rúmum 9.000 tonnum í fyrra á sama tíma.

Á öllu árinu 2012 nam makrílafli Færeyinga 107.000 tonnum og síldaraflinn 51.000 tonnum.

Færeyingar hafa sett sér 159.000 tonna makrílkvóta á þessu ári og 105.000 tonna síldarkvóta.

Þessar tölur koma fram í Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi.