Vestursvæðið, eða svæði A, er eina svæðið þar sem mánaðarkvótinn kláraðist á strandveiðitímabilinu.
Leyfilegt var að veiða 715 tonn af óslægðum botnfiski á svæði A í maí og voru veiðar þar stöðvaðar á miðnætti 23. maí.
Hin þrjú svæðin eiga mikið eftir af sínum kvóta sem færist þá yfir á næsta mánuð.
Frá þessu er skýrt á vefnum bb.is . Í gærmorgun höfðu veiðst um 43% kvótans á norðursvæðinu eða svæði B, 29% á norðaustursvæðinu eða svæði C, og 53% á suðursvæðinu eða svæði D. Síðasti dagur strandveiða í þessum mánuði var í gær.
Um tvöfalt fleiri bátar eru á strandveiðum á svæði A en öðrum svæðum, eða 219 talsins. Á svæði B eru 99 bátar, á svæði C eru 98 bátar og á D svæði eru 118 bátar.