„Þegar maður er kominn á sirka tíu metra dýpi er maður kominn í veiði. Þannig að yfirleitt þarf maður ekki að fara langt til að ná sé í fisk,“ segir Leifur Dam Leifsson í GG Sporti sem lengi hefur stundað sjóstangaveiði úr kajak.

„Það eru margir staðir á Íslandi þar sem þarf bara rétt að fara út fyrir hafnarmynnið til að komast í góða veiði. Ég er búinn að vera á kajaknum um allt land í mörg ár og held að ég hafi veitt nánast allt í kringum landið,“ segir Leifur.

Þorskurinn er uppistaðan í veiðinni. „Trixið sem ég nota til þess að fá fleiri tegundir er að setja beitu á slóðann. Ef maður er til dæmis með makríl þá kemur lykt og hún dregur að sér ýsu og steinbít og fleira,“ segir Leifur.

Frystikistan setur kvótann

Sjóstöngin er mikil búbót. „Ég hef að minnsta kosti ekki farið í fiskbúð síðan 2013,“ segir Leifur sem verkar fiskinn á margvíslegan hátt og gengur svo frá honum með vakúmpökkunarvél sem hann á.

Veiðfélagi Leifs með góðan afla. Mynd/Aðsend
Veiðfélagi Leifs með góðan afla. Mynd/Aðsend

Aðspurður segir Leifur engar skorður vera við slíkri veiði. „Ég held að kvótinn miðist eiginlega við það hversu stór frystikistan þín er,“ segir hann.

Helsta veiðistað kajakræðara á höfuðborgarsvæðinu segir Leifur vera í Kollafirði. Margir kannist við stólpa á miðjum firðinum. Hann standi á Helguskeri.

„Þar út frá er læna sem er yfirleitt smekkfull af fiski,“ upplýsir Leifur, sem byrjaði að stunda þennan stað ásamt þáverandi konu sinni fyrir margt löngu. „Þetta var eiginlega fjölskyldustaður í mörg ár en í dag er þetta frægasti kajakveiðistaður Íslands.“

Ætlaði aldrei að drepast

Þegar Leifur er spurður um það skrítnasta sem hann hafi upplifað í veiðinni kemur þáverandi konan hans við þá sögu.

„Eitt magnaðasta atriði sem ég hef séð er þegar konan mín veiddi steinbít og skellti honum í klofið á sér. Svo byrjaði hann að glefsa á fullu og það varð þvílíkt fát á öllum að koma kvikindinu fyrir kattarnef,“ segir Leifur.

Viðureign við steinbít vakti athygli við Viðey.
Viðureign við steinbít vakti athygli við Viðey.

Marga aðra kajakræðara hafi drifið að þar sem þau voru nærri Viðey.

„Steinbíturinn byrjaði að glefsa í innri lærin á henni og ég tók hníf og rak hann í gegnum hausinn á honum en hann ætlaði aldrei að drepast. Ég var skíthræddur við hann því þetta var stærðarinnar fiskur,“ segir Leifur.

Steinbíturinn ógurlegi fylgdi með í land. „Hann var grillaður á teini,“ segir Leifur um þau málalok.

Þessi atburður var tekinn upp á myndband sem sjá má hér á Youtube.