Róm hefur orðið fyrir innrás þúsunda máfa sem gera borgarbúum lífið leitt og stela mat af borðum veitingahúsagesta á torgum borgarinnar. Það þótti hins vega taka út fyrir allan þjófabálk þegar sást til máfs ráðast á friðardúfu sem sjálfur Frans páfi stóð fyrir því að sleppa á Péturstorgi.
Róm er ekki eina borgin sem stríðir við þessi illfygli sem stöðugt færa sig upp á skaftið við fæðuöflun. Margir rekja þetta til fæðuskorts við strandirnar en í eðlilegu árferði nærast máfarnir á því sem hafið hefur upp á að bjóða.
Máfar fóru fyrst að láta á sér kræla og gera sér hreiður í Rómarborg á níunda áratugnum enda nóg æti í rusladöllum í stórborginni og síðan hefur þeim fjölgað verulega.
Það þykir hins vegar tímanna tákn að þeir séu farnir að gera sig heimakomna í sjálfu Vatikaninu. Fyrr á þessu ári stóð heilagur Frans páfi við glugga frammi fyrir almúganum á Péturstorgi. Við hlið hans voru tvö börn sem héldu á hvítum friðardúfum. Þau slepptu dúfunum og mannfjöldinn fagnaði ákaft. Gleðin varð hins vegar skammvinn því máfur réðst umsvifalaust á aðra dúfuna og náði að reita af henni stélfjaðrirnar áður en hún komst undan.