Vottunarstofnunin Marine Stewardship ouncil (MSC) hefur nú starfað í 28 ár og nær starfsemin til um sjötíu landa, þar með talið Íslands.
Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC í Norður-Atlantshafi, segir að pphafið megi rekja til þess er þorskstofninn við Nýfundnaland hrundi snemma á síðasta áratug síðustu aldar.
„Veiðarnar við Nýfundnaland voru yfirleitt ríflega það sem er tvöfaldur árlegur þorskafli Íslendinga í dag. Þetta voru miklar búsifjar fyrir Nýfundnaland og má áætla að um 35 þúsund manns hefðu misst vinnuna vegna þessa. Þetta vakti heimsathygli og kaupendur sjávarafurða hugsuðu að ef þeir eru að kaupa hráefni úr auðlind sem hrynur, þá væri það orðsporsáhætta,“ rekur Gísli.
Grípa þurfti í taumana
Að sögn Gísla ýtti þessi atburður undir kröfur um að gripið væri í taumana til að stemma stigu við ósjálfbær um fiskveiðum um heim allan. Einstaka umhverfissamtök hafi jafnvel hvatt fólk til þess að hætta að borða fiskmeti.
„Frá sjónarhóli stjórnvalda og þeirra sem störfuðu við útveginn mátti ljóst vera að algert veiðibann gengi ekki, en verndun fiskistofna og skilvirk veiðistjórnun væri strandríkjum aftur á móti lífsnauðsyn. Í þessu umhverfi hófu Unilever, sem á þeim tíma var stór kaupandi að fiski, og umhverfissamtökin WWF samstarf með það að markmiði að skilgreina kröfur til sjálfbærra veiða,“ segir Gísli.
Brýn þörf fyrir kerfið
Á þessum árum eins og í dag segir Gísli að í stórmörkuðum erlendis hafi verið seldar margar tegundir af fiski, sumar úr sjálfbært nýttum stofnum en aðrar úr ofveiddum stofnum.
„Neytandinn hafði engin tök á að vita hvaða fiskur væri úr vel nýttum stofni. Þeir sem stunduðu ábyrgar veiðar á einu veiðisvæði þurftu líka oft að gjalda fyrir umræðu um ofveiði á öðru veiðisvæði. Það var brýn þörf á að búa til kerfi sem greindi á milli þess hvort fiskurinn í stórmarkaðnum kæmi úr sjálfbært nýttum stofni eða ekki,“ segir Gísli.
Markmiðið hafi verið að þróa slíka staðla og vottunarkerfi fyrir sjálfbærar fiskveiðar og byggja upp vörumerki fyrir afurðir úr sjálfbært nýttum stofnum sem sett væri á umbúðir fiskafurða eða matseðla veitingastaða.
Sáu tækifæri í sjálfbærni

„Fiskveiðarnar þyrftu þannig að fara í gegnum vottun og standast staðla MSC. Stórmarkaðir og aðrir sáu viðskiptatækifæri í því að sýna neytendum að varan sem þeir versluðu með kæmi úr sjálfbærum fiskveiðum og hefðu hlotið vottun samkvæmt staðli MSC. Hugsjónin á bakvið MSC er að með aukinni eftirspurn eftir sjávarafurðum úr sjálfbært nýttum stofnum kapist hvati til að nýta fiskstofna heimsins með sjálfbærum hætti í framtíðinni og ofveiði heyri þar með sögunni til.“
Spurður hvað nánar felist í vottunarkerfi Marine Stewardship Council segir Gísli MSC gera út þrjár vörur; fiskveiðistaðal sem skilgreini sjálfbærar fiskveiðar, umhverfismerki MSC sem hægt sé að nota á sjávarafurðir sem eigi uppruna í vottuðum sjálfbærum veiðum og í þriðja lagi rekjanleika staðal sem tryggi að vara með umhverfismerki MSC eigi sannarlega uppruna í vottuðum sjálfbærum veiðum.
„MSC fiskveiðistaðallinn er notaður til að meta hvort veiðum sé vel stjórnað og hvort þær séu umhverfisvænar og sjálfbærar,“ segir Gísli. Vottun samkvæmt staðlinum sé valfrjáls. Allir sem stundi veiðar á villtum sjávarlífverum og ferskvatnslífverum, en þar á meðal séu flestar fisk- og skelfisktegundir, geti sótt um vottunina.
Fælingarmáttur gegn svindli
Þá segir Gísli að fiskveiðar séu metnar af viðurkenndumóháðum vottunaraðilum sem kallist Confirmity Assessment Bodies (CABs). Fiskveiðistaðall MSC hafi til grundvallar þrjár meginreglur. Í fyrsta lagi að um sé að ræða sjálfbæra fiskistofna, í öðru lagi að umhverfisáhrif séu lágmörkuð og í þriðja lagi að veiðistjórnun sé skilvirk.
„Ferlið frá því að fiskur er veiddur og þar til hann er borinn á borð neytenda getur verið langt og aðfangakeðjur stórmarkaða og smásala eru oft mjög flóknar. MSC-rekjanleikavottun tryggir rekjanleika vöru frá sjálfbærum MSC-vottuðum veiðum. Að þeim sé haldið aðskildum frá óvottuðum vörum, bæði í bókhaldi og í vöru- og frystigeymslum fyrirtækja sem stunda viðskipti með sjávarafurðir,“ segir Gísli.
Til þess að vara geti borið bláa MSC-merkið verði öll fyrirtæki í aðfangakeðjunni að hafa gilt rekjanleikavottorð. Standast þurfi úttekt óháðra vottunaraðila.
„Allar sjávarafurðir sem hafa bláa MSC-merkið eru rekjanlegar til sjálfbærra fiskveiða. DNA-prófanir, fyrirvaralausar eftirlitsúttektir og rannsóknir, sem framkvæmdar eru af hálfu MSC, hafa mikinn fælingarmátt gegn röngum merkingum og öðru svindli,“ segir Gísli.
Fimm milljarða tekjur
Að sögn Gísla eru MSC samtökin sjálfseignarstofnun sem hafi ekki að markmiði að skila hagnaði. En starfsemin eigi að vinna að því markmiði að gera fiskveiðar sjálfbærar.
„Til allrar starfsemi þarf fjármagn til rekstrar og tekjur samtakanna koma að langmestu leyti sem endurgjald fyrir notkun á MSC vörumerkinu. MSC hefur engar tekjur af vottuninni, en umsækjandi um fiskveiði- eða rekjanleika vottun gerir samning við vottunarstofu. Til að nota MSC merkið er gerður vörumerkja samningur við MSC og það er greitt gjald til MSC fyrir notkun á merkinu,“ segir Gísli.
Framgang MSC segir Gísli því helst mældan í hversu mikið af fiskveiðum sé vottað, hversu mörg fyrirtæki séu með rekjanleikavottun og hve margar vörur beri MSC umhverfismerkið. Tekjur MSC á síðustu árum hafa verið ríflega 30 milljónir punda, jafnvirði ríflega fimm milljarða íslenskra króna. Ríflega þá upphæð eigi MSC í varasjóði, sem sé meðal annars bundinn í húsnæði höfuðstöðva MSC í London.
Tuttugu þúsund tegundir
Þessi sjálfseignarstofnun var sett á fót árið 1997 og var þá farið að þróa meginreglur og viðmið fyrir sjálfbærar veiðar.
„Eftir hægan framgang fyrstu árin, þá gekk MSC í gegnum mikla endurskipulagningu árið 2004 og upphófst þá nýtt tímabil vaxtar og útbreiðslu sem stendur enn,“ segir Gísli. Í dag hafi um 19 prósent af veiðum á villtum fiskistofnum fengið MSC vottun eða farið í gegnum vottunarferli.
„Í dag eru seldar í tæplega sjötíu löndum ríflega tuttugu þúsund vörutegundir sem bera umhverfismerki MSC. Það eru um fimm þúsund fyrirtæki með MSC rekjanleika vottun og starfsemi þeirra nær til fimmtíu þúsund starfsstöðva. Æ fleiri stórmarkaðir og aðrir setja það sem kröfu fyrir viðskiptum að fiskur sem verslað er með komi úr vottuðum sjálfbært nýttum stofnum. Mörg þekkt vörumerki og smásöluaðilar nota merki MSC eins og til dæmis Youngs, Iglo, Birds Eye, McDonalds hamborgarakeðjan og fleiri,“ segir Gísli. Hjá MSC starfi nærri þrjú hundruð manns í öllum byggðum heimsálfum.
Tortryggni útgerðanna
Sjálfur hóf Gísli störf hjá MSC sem ráðgjafi árið 2008 og hefur verið í fullu starfi síðan 2012. „Það er óhætt að segja að íslenskur sjávarútvegur hafði miklar efasemdir um ágæti MSC,“ svarar hann spurður um viðtökur íslenskra útgerða. Framgangur MSC hér á landi hófst fyrir frumkvæði útflutningsfyrirtækja sem skynjuðu þörfina en á bak við þau voru einnig fiskvinnslur og útgerðir.“

Gísli bendir á að að í gömlum blaðagreinum megi glöggt sjá að ótti hagsmunaaðila við MSC hafi verið djúpstæður og einlægur líka að því er hann haldi.
„Þeir töldu að staða umhverfisverndarsamtaka væri of sterk innan MSC, hætta væri á að tekið væri of mikið tillit til öfgafullra sjónarmiða og þetta myndi allt kosta skildinginn. Það var einnig vitnað í umræðuna um hvalveiðar þar sem umhverfissamtök vildu og vilja stöðvar alfarið veiðar. Það var aftur á móti bent á að í umræðunni um fiskveiðar þá væru flestir sammála um að það væri sameiginlegt markmið í fiskveiðum að gera allar veiðar sjálfbærar en ekki að banna veiðar,“ rifjar Gísli upp.
Séríslenskt vottunarkerfi
Einnig nefnir Gísli að á þessum árum hafi almennt ekki verið mikið um að það giltu aflareglur fyrir nýtingu fiskistofna við Ísland.
„Þá var enn þá sú staða að ráðherra gaf stundum út meiri aflaheimildir en ráðgjöf lagði til. Í fiskveiðistöðlum eins og MSC þá er beinlínis krafa að veiðar byggi á vísindalegri nálgun og það sé þróuð nýtingarstefna og þar með aflaregla. Það varð úr að byggja einnig upp séríslenskt vottunarkerfi, Iceland Responsible Fisheries, en þar eru líka kröfur um meðal annars aflareglu. Þeir sem tóku afstöðu með MSC bentu á að í heimi þar sem um 30 prósent af heimsveiðinni eru skilgreind sem ofveiði samkvæmt skýrslum frá FAO þá yrði vottun á sjálfbærum veiða trúlega lykill að öllum helstu og bestu mörkuðum,“ segir Gísli.
Höfðu vottun fyrir MSC
Sömuleiðis hafi verið bent á kosti þess að umhverfismerki MSC nyti vaxandi virðingar, að það væri alþjóðlegt og væri þróað í gegnum samvinnu hagsmunaaðila og umhverfissamtaka sem væri kostur því það ætti að auka trúverðugleika þess. Icelandic Sustainable Fisheries (ISF) varð til á Íslandi árið 2012. Áður höfðu nokkrir aðilar sótt um og fengið MSC vottun. Tilgangur ISF er að afla vottana gagnvart staðli MSC.
Gísli segir sjálfstæðar og faggildar vottunarstofur meta og taka út fiskveiðar við Ísland
samkvæmt MSC staðlinum. „Áður en ISF var stofnað þá höfðu fyrirtæki eins og Icelandic Group, Samherji, Vignir Jónsson á Akranesi og Sæmark haft fiskveiðivottanir. Öll þessi fyrirtæki gengu í ISF,“ segir Gísli. Að ISF í dag standi um 65 íslensk útgerðarfyrirtæki, framleiðendur og sölufyrirtæki.
Mikilvægt að fylgja vísindunum

„Það eru ekki allar útgerðir aðilar að ISF en ef þær landa afla þá þarf sú afurð að fara í gegnum ISF aðila, annaðhvort vinnslu eða söluaðila. ISF ber allan kostnað af fiskveiðivottun og á aðalfundi ISF er ákveðið hvaða gjald meðlimir greiða til ISF, en það er kostnaður fyrirtækja við MSC fiskveiðivottun á Íslandi,“ segir Gísli. Auk fiskveiðivottunar séu yfir tvö hundruð framleiðslu- og sölustaðir hér á landi með MSC rekjanleikavottun. Þannig sé þátttaka íslensks sjávarútvegs í MSC mjög almenn.
Samfara vottun á flestum fiskistofnum við Ísland segir Gísli að flestir sjávarútvegsráðherrar í seinni tíð hafi fylgt ráðgjöf um heildarafla og það hjálpi að viðhalda vottun.
„Ég held að ein mikilvægasta breytingin sé að í dag er almennt viðurkennt að bestu hagsmunir útgerða og sjávarútvegs, og já þá landsins alls sé að byggja fiskveiðar á vísindalegri ráðgjöf sem er ein forsenda fyrir að öðlast MSF fiskveiði vottun.“
Bagalegt ósamkomulag
Stærstu fiskveiðarnar sem eru ekki vottaðar segir Gísla vera hinar þrjár alþjóðlegu uppsjávarveiðar, það er veiðar á norsk-íslensku síldinni, kolmunna, og makríll.
„Það eru sjö þjóðir í Norður-Atlantshafi sem veiða úr þessum stofnum og allar eru þær sammála að fylgja vísindalegri ráðgjöf en ósammála hvernig eigi að skipta aflaheimildum á milli landa. Því setur hvert land sinn kvóta og árlegur heildarafli fer umfram ráðgjöf og slíkt fyrirkomulag stenst ekki staðla sem mæla sjálfbærni veiðanna. Þetta er ákaflega bagalegt að þessar fiskveiðiþjóðir skulu ekki geta náð samkomulagi,“ undirstrikar Gísli.
Ísland með skýra forystu
Fyrir utan þessa þrjá deilistofna segir Gísli að á síðustu árum hafi um 98 til 99 prósent af lönduðum afla við Ísland verið úr veiðum sem séu MSC vottaðar.
„Ísland hefur einnig haft skýra forystu og var fyrsta landið í heiminum með níu tegundir í MSC. Þessar tegundir eru karfi, steinbítur, loðna, langa, keila, skötuselur, sólkoli, blálanga og grásleppa.
„Enn þá erum við eina þjóðin sem hefur fengið vottun á blálöngu, sólkola, steinbít og loðnu en Ísland deilir loðnuskírteininu með Norðmönnum og Grænlendingum,“ segir Gísli.
MSC er aðeins hluti af stórum hópi umhverfismerkja leggur Gísli áherslu á. Hann nefnir til dæmis Forestry Stewardship Council eða FSC merkið á pappír eða timburvörum sem þýði að viðurinn sé úr sjálfbærum skógarnytjum. Einnig Fairtrade merkið á súkkulaði, sykri, te og kaffi sem þýði að bóndinn fái sanngjarnt verð fyrir sinn hlut.
„Markmiðið með svona umhverfisstöðlum er að gera heiminn sjálfbærari – og betri,“ segir Gísli Gíslason.