Talið er óhætt að auka grásleppuveiðar í heiminum um 20% á þessu ári, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Heimsveiðin á síðasta ári skilaði alls um 18 þúsund tunnum af grásleppuhrognum sem er rúmum 4 þúsund tunnum færra en 2015. Íslendingar voru með tæp 60% af heimsframleiðslunni, eða 10.374 tunnur. Grænlendingar komu þar á eftir með um 5.730 tunnur og um 32% af heildinni. Norðmenn voru með 460 tunnur, Nýsjálendingar með 267 tunnur. Áætlað er að Danir og Svíar hafi samanlagt verið með 1.000 tunnur en þau grásleppuhrogn seljast beint til neytenda en fara ekki í framleiðslu kavíars.
„Við teljum því að markaðurinn verði í jafnvægi með því að auka veiðarnar í heiminum um 20%. Verði aukningin jöfn hjá öllum veiðiþjóðum ættu grásleppukarlar á Íslandi ekki að lenda í vandræðum með sölu á 12 til 13 þúsund tunnum á árinu 2017.“ sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í samtali við Fiskifréttir.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.