Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, í samstarfi við Hafrannsóknastofnun Noregs leggja til að þorskveiði í Norðursjó verði tæp 60.000  tonn á næsta ári sem er um 26% aukning frá kvóta síðasta árs.

Niðurstaða vísindamanna er að almennt er staða helstu fiskstofnanna í Norðursjó með besta móti. Mælt er einnig með aukningu í veiðum á ýsu og lýsu.

Hafrannsóknastofnun Noregs segir langt síðan ástand botnfisktegunda hafi verið jafn gott í Norðursjó.

Mælt er með veiðum á 27.000 tonnum af lýsu sem er 16% aukning frá yfirstandandi ári. Ýsustofninn er sterkur en veiðiálag er mikið. Auk þess hefur nýliðun verið léleg síðustu ár. Kvótaráðið leggur þó til 40.000 tonna veiði á næsta ári sem er 29% aukning.

Ufsastofninn er einnig sterkur þótt óvissa sé með nýliðunina. Lagt er til að heimilt verði að veiða 118.000 tonn á næsta ári sem er 11% samdráttur frá yfirstandandi ári.