ff

Kínverskir fjölmiðlar fullyrða að um 20% af heimsframleiðslu á kavíar úr styrjuhrognum komi frá Kína. Þrátt fyrir metnað Kínverja til að verða leiðandi þjóð í heiminum í kavíarframleiðslu gæti besta tækifærið þeirra samt verið fólgið í því að leyna uppruna vörunnar, að því er segir í frétt á vefnum SeafoodSource.

Framboð á styrjuhrognum hefur minnkað vegna ofveiði á styrjum í Kaspíahafi. Kínverjar ætla að fylla það gap sem myndast á markaðnum. Þeir hafa fjárfest gríðarlega í eldi á styrjum. Þeir hreykja sér af því að styrjuhrogn séu borin fram á dýrustu veitinghúsum heims en þó undir þekktum alþjóðlegum vörumerkjum.

Markaðssérfræðingar segja að enn sé gæðum styrjuhrogna frá Kína áfátt. Hins vegar sé það ekki stærsta vandamálið. Með tíða og tíma geti þeir náð tökum á framleiðslunni þannig að enginn gæðamunur verði á kavíar frá Kína og Rússlandi. Hins vegar gæti það reynst þrautin þyngri að sannfæra heiminn um að lúxusvara og „Made in China“ fari saman. Stimpillinn „Made in China“ muni verðfella vöruna hversu góð sem hún er.