„Hugmynd Árna Sverrissonar, formanns Félags skipstjórnarmanna, um að deila strandveiðipottinum jafnt á alla báta er fyrsta skrefið í átt að kvótasetningu strandveiðanna. SFS vill það til þess eins að endanlega knésetja smábátasjómenn, en það mun ekki gerast á okkar vakt,“ segir Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandaveiðifélags Íslands, sem hefur ýmislegt út á sjónarmið Árna að setja sem komu fram í Fiskifréttum í síðustu viku og á vef Fiskifrétta, https://fiskifrettir.vb.is/buast-vid-mikilli-fjolgun-bata-inn-i-strandveidikerfid/.

Árni sagði þar að bátum muni fjölga í strandveiðikerfinu og veiðin fari úr 10-12 þúsund tonnum öðru hvoru megin við 20.000 tonn verði stefna nýrrar ríkisstjórnar, um að tryggja strandveiðimönnum 48 daga til veiða óháð heildarafla, að veruleika.

Tvöfalda verðlagningin

„Því miður er enginn grunnur fyrir útreikningum sem gera ráð fyrir tvöföldun kerfisins. Miðað við fiskgengd og veðurfar undanfarinna ára má gera ráð fyrir 14-16.000 tonnum. En ég segi því miður, því auðvitað er það eingöngu af hinu góða að skapa umhverfisvæn og eftirsóknarverð störf í brothættum byggðum,“ segir Kjartan Páll.

Hann segir markaðsverð sem Árni vitni til sé tilkomið vegna þeirrar tvöföldu verðlagningu sem skekki markaðinn. „Það er náttúrulega mjög lágt hlutfall af kvótafiski sem fer á markað, en nánast allur strandveiðiafli. Þannig að það segir sig sjálft að þegar framboð eykst á markaði fer verðið niður. Vandamálið er ekki of mikill strandveiðiafli á markaði heldur of lítill kvótaafli og of lítil dreifing á framboði. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að við fáum 6 mánuði, frekar en 4, til að nýta okkar 48 daga, sem myndi tryggja stöðugra og dreifðara framboð og sem bestu hráefni.“

Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands.
Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands.

Kjartan Páll segir það líka óforskammað að kenna trillukörlum og konum um lágan skiptahlut sjómanna. Lausnin á því vandamáli sé ekki að leggja fiskmarkaði af eða svelta þá af framboði, heldur að aðskilja veiðar og vinnslu. „Það er svolítið skrýtið að heyra hörðustu talsmenn frjálsra markaða tala fyrir því að verð eigi að vera ákvarðað af einhverri ríkisstofnun frekar en af mörkuðum, að það sé bara hið besta mál að ríkið fái að skekkja markaðinn frekar en að láta hann sjá um það að ákvarða eðlilegt markaðsverð. Ég skil ekki hvernig sjómenn og skipstjórar sætta sig við þetta arðrán og jafnvel verja það.“

Afsláttur af veiðigjöldum

Kjartan Páll segir að stórútgerðin fái nákvæmlega sama afslátt af veiðigjöldum og strandveiðimenn. „En aftur á móti þurfum við að borga veiðileyfagjald fyrir hverja vertíð, en stórútgerðin borgar það bara einu sinni á sinni líftíð. Þar bætast við 4 krónur kílóið, þannig að stórútgerðin fær í raun meiri afslátt en við. Það er vissulega rétt að hreinn hagnaður hjá okkur er lægri en hjá stórútgerðinni, en það er vegna þess að hagnaðurinn dreifist á fleiri hendur.“

Kjartan Páll segir að taktíkin sé sú að gera starfsumhverfi trillukarla þannig að nánast ógerningur sé að lifa á smábátaútgerð. „En ég væri til í að sjá stærstu útgerðirnar sýna jákvæða afkomu í þeirri ríghertu spennitreyju sem við smábátasjómenn störfum í. Ef þeirra skip væru bundin við bryggju 330 daga á ári. Ef þeirra veiðar væru einskorðaðar við ákveðin veiðisvæði í kringum landið. Ef þau mættu ekki sækja sjóinn föstudaga, laugardaga eða sunnudaga. Ef þau þyrftu alltaf að verða komin í land fyrir miðnætti ellegar fá sekt og leyfissviptingu. Ef þau mættu ekki velja sér þann tíma árs sem besta fiskgengdin er. Ég efast um að þau kæmu vel út úr því.“

Hann veltir því fyrir sér hvers vegna stórútgerðin, sem hefur staðið af sér skerðingu um 60 þúsund tonn á fimm árum, telji að allt fari til andskotans fái strandveiðimenn 4 þúsund tonn til viðbótar. „Svarið felst í því að smábátaflotinn hefur sýnt fram á að það er hægt að stunda hagkvæmar veiðar án þess að leggja bæði vistkerfi og brothættar byggðir í rúst. Okkur hefur tekist það við aðstæður sem stórútgerðin gæti aldrei starfað við. Þau eru skíthrædd við það að við fáum frekara tækifæri til að sanna okkur, ekki vegna þess að þau óttast að við tökum allan kvótann, heldur vegna þess að þá þurfa þau líka að huga að umhverfinu og landsbyggðinni. Þess vegna róa þau öllum árum að koma í veg fyrir það.“