Myndi fólk hugsa sig um tvisvar áður en það pantaði sér máltíð af fiskstautum ef þeir væru nefndir sjókettlingastautar? Myndi sjókettlingafrauð seljast vel á sjávarréttarstöðum? Væri lystugt að borða flak af sjókettlingi?

Þannig er spurt á vefsíðu PETA, stærstu dýraverndarsamtaka í heimi, sem hafa tvær milljónir félaga og styrktaraðila innan sinna vébanda. Samtökin hófu í fyrra nýja herferð gegn fiskveiðum sem er í því fólgin að fá fólk til að hætta að kalla fiska sínum réttu nöfnum en kalla þá í staðinn sjókettlinga.

Margir leiða alls ekki hugann að þeirri staðreynd að fiskar eða sjókettlingar eru gáfuð og áhugaverð dýr, hvert og eitt með sinn eigin sérstaka persónuleika, rétt eins og hundar og kettir sem við höldum á heimilum okkar, segir á vefsíðunni. ,,Veist þú að sjókettlingar geta lært að forðast net með því að fylgjast með öðrum sjókettlingum og að sumir sjókettlingar afla sér upplýsinga með því að hlera aðra slíka”, er jafnframt spurt.

Eftirfarandi er haft eftir Dr. Sylvia Earle, sem sögð er vera í fremstu röð sjávarlíffræðinga í heiminum: ,,Ég borða aldrei neitt sem ég þekki persónulega. Ég myndi ekki viljandi borða ,,grouper” [algeng fisktegund] frekar en að ég legði mér til munns cocker spaniel hund. Þeir eru svo skapgóðir og forvitnir. Athugaðu það að fiskar eru tilfinninganæmir og hafa persónuleika, þeir finna til þegar þeir eru særðir,” segir Dr. Sylvia á vefsíðu PETA.