Lýsi er allra meina bót eins og menn vita. Þessi undradrykkur er talinn geta læknað ýmsa kvilla og neysla þess er talin geta komið í veg fyrir ótímabæra hjartasjúkdóma og andlega hrörnun svo dæmi sé nefnt. Nú hafa vísindamenn sýnt fram á að omega-3 fitusýran, sem lýsið er auðugt af, geti einnig gagnast þeim sem glíma við áfengissýki, að því er fram kemur á fréttavefnum dailymail.co.
Vísindamenn við lyfjaháskólann í Indíana í Bandaríkjunum uppgötvuðu þennan eiginleika lýsisins fyrir tilviljun þegar verið var að kanna hvort lýsi gæti gagnast þeim sem þjást af geðhvarfasýki. Rannsóknir á tilraunastofu sýndu að mýs, sem áður höfðu sýnt merki um óeðlilegar geðsveiflur, urðu eðlilegar á ný við neyslu lýsis. Einnig kom í ljós við hliðarrannsóknir að lýsið dró einnig úr löngun í áfengi. ,,Þunglyndi hvort sem það greinist hjá músum eða mönnum leiðir gjarnan til of mikillar áfengisneyslu. Við teljum því að rannsóknir okkar hafi bæði sýnt fram á að lýsi sé gott til að draga úr áfengisneyslu og hjálpi þeim sem glíma við geðhvarfasýki. Vísbendingar hafi fengist um að lýsið hafi svipuð áhrif og geðlyf á heilann” er haft eftir talsmanni rannsóknarinnar.