Landssamband smábátaeigenda telur lag með tilliti til ástand þorskstofnsins og ytri markaðsaðstæðna að stjórnvöld setji Hafrannsóknastofnun nýja aflareglu sem miðist við 23% af veiðistofni í stað 20%. Með því myndi leyfilegur heildarafli í þorski hækka um 16 þúsund tonn.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Landssambandsins í síðustu viku, að með breyttri aflareglu mætti auka við heimildir til veiða með handfærum á smábátum.
Ráðgjöfin of varfærin
„Þorskurinn er okkur dýrmætastur, því mikið í húfi að þar sé aðgát höfð. Nú er hins vegar svo komið að æ fleiri segja ráðgjöfina of varfærna. Illa sé komið fyrir okkur þegar ekki er einu sinni hægt að auka við heimildir til veiða með handfærum á smábátum. Ráðherra svarar þessu á þann veg að byggja eigi á vísindalegum grunni með aflareglu, þar sem leiðarljósið séu tillögur Hafrannsóknastofnunar,“ sagði Örn.

Mistök í útreikningum?
Hann velti því upp í ræðu sinni hvort mælingar Hafrannsóknastofnunar séu réttar og fór í máli og myndum yfir nokkrar staðreyndir sem byggja á gögnum stofnunarinnar. Samkvæmt þeim er meðalþyngd þorsks í afla frá 1955 til 2022 3.320 kg. Aldrei í sögu mælinga frá 1955 hafi meðalþyngd verið hærri en árið 2019, 4.230 kg. Þremur árum síðar, 2022, var meðalþyngd 4.156 kg og þá hafi hlutfall 8 ára þorsks og eldri aðeins verið 31%, á móti 51% á árinu 2019. Að meðaltali voru fyrir sama árabil (1955-2022) 95,3 milljónir fiskar í þorskafla hvers árs en frá árinu 1992 hafi fjöldi þorska í afla ekki náð langtímameðaltali. Fæstir voru þeir árið 2008, 46 milljónir, og frá árinu 1994 til 2022 hefur meðaltalið verið 64 milljónir fiska, aðeins tveir þriðju hlutar af langtímameðaltali.
„Ég tel líklegt að hér hafi verið gerð mistök og ætla Hafró út frá þessum tölum að skoða málið með tilliti til endurútreikninga á stærð veiðistofns,“ sagði Örn og bætti við að eftir að hafa skoðað þessa þætti hafi hann fyllst efasemdum varðandi árlega stofnmælingu botnfiska sem aflamark hvers árs er byggt á samkvæmt 20% aflareglu stjórnvalda.
„Greinilegt er að það sem kemur upp úr sjónum á lítið skylt við það sem mælist í togararalli. Það eru allir að reyna að hámarka verðmæti með því að veiða stærsta fiskinn.
Eitt pennastrik
„Hafrannsóknastofnun fylgir aflareglu sem stjórnvöld hafa sett. Þessari aflareglu geta þau breytt með einu pennastriki. Þannig væri hægt að bæta við þegar ástand er gott eða markaðaðstæður eru okkur hagstæðar. Svo vill til að hvoru tveggja er fyrir hendi um þessar mundir. Norðmenn munu draga saman þorskveiðar og því losnar pláss á markaðinum sem við eigum að nýta. Stjórnvöld bera ábyrgð með því að setja aflareglu. Þau eiga við þessar aðstæður að í stað 20% af veiðistofni verði miðað við 23%. Við það myndi leyfilegur heildarafli hækka um 16 þúsund tonn og gjörbreyta stöðunni.“