Atvinnuvegaráðherra hefur úthlutað 100 tonnum af íslenskri sumargotssílds til viðbótar við 500 tonna sérstaka úthlutun. Landssamband smábátaeigenda lýsir yfir vonbrigðum með þessa úthlutun en LS hafði farið fram á að 500 tonnum væri bætt við.

Þetta kemur fram á vef LS. Þar segir að á fimmta tug báta hafa fengið leyfi til síldveiða með lagnetum í Breiðafirði. Þar hafi bátarnir veitt ágætlega á undanförnum vikum og landað aflanum í Stykkishólmi. Í fréttinni á vef LS segir ennfremur: „Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði ætlað 500 tonn til þessara veiða, en nú er ljóst að það nægir engan vegin. Í lok síðustu viku sást hvert stefndi og ritaði Landssamband smábátaeigenda því Steingrími J Sigfússyni atvinnuvega- og nýsköpunarrráðherra bréf þar sem óskað var eftir næsta 500 tonna skammti til veiðanna. Ráðherra hefur nú brugðist við erindi LS, með 100 tonna úthlutun.

Ákvörðunin er LS mikil vonbrigði og vekur óneitanlega upp spurningar hvort ekki sé ætlunin að úthluta meira til þessara arðbæru veiða. LS hefur óskað eftir fundi með ráðherra um málefnið þar sem ítrekuð verða sjónarmið félagsins og óskað upplýsinga um framtíð veiðanna. Þess má geta að samkvæmt ákvæði laga um stjórn fiskveiða hefur ráðherra heimild til að úthuta 2000 tonnum af síld utan aflamarks. Upphaf þeirra veiðiheimilda komu til vegna frosins kvótamarkaðar með síld. Aðilar sem höfðu í áraraðir t.d. veitt síld í beitu var það því ógerlegt, sem kallaði á áðurgreint lagaákvæði.

Í fyrra hófu 5 smábátar tilraunaveiði á síld. Þær skiluðu góðum árangri og vöktu áhuga fleiri til þátttöku í veiðunum. Útgerðir bátanna greiða 13 kr/kg af síldinni í leigu til ríkisins og landa henni til vinnslu fyrir hágæðamarkað. Kaupendur síldarinnar greiða 85 kr/kg sem er liðlega helmingi hærra en fæst fyrir síld úr nótabátum. Gera má ráð fyrir að á annað hundrað störf hafi orðið til við þessar veiðar.“