Stuttri og snarpri loðnuvertíð er að ljúka og má ætla að útflutningsverðmæti loðnuafurðanna sé í kringum 11 milljarðar króna, að því er Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir í samtali við Fiskifréttir sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.
,,Ég veit ekki betur en að vertíðin hafi gengið vel hjá öllum og öll loðnan hafi farið í vinnslu,” segir Gunnþór. ,,Reikna má með að 18-20 þúsund tonn af loðnu hafi verið fryst, að langstærstum hluta á Austur-Evrópumarkað en sáralítið á Japan. Japansmarkaður hefur verið þungur og erfiður vegna þess hve mikið var selt af loðnu inn á hann í fyrra frá Noregi á lágu verði og von er á meiru þaðan á þessari vertíð. Bróðurparturinn af íslenska loðnukvótanum, sennilega upp undir 80%, hefur að þessu sinni farið til vinnslu á hrognum. Framleiðslan verður örugglega um 10.000 tonn sem gæti skipst til helminga milli Japansmarkaðar og Austur-Evrópumarkaðar, þótt of snemmt sé að slá neinu föstu um það.”
Síðasti loðnufarmur Síldarvinnslunnar á vertíðinni var á leið til Neskaupstaðar í gær en samanlagt hefur fyrirtækið tekið á móti um 35.000 tonnum á Norðfirði og í Helguvík.