,,Það er búin að vera fín veiði hérna úti af Ingólfshöfðanum síðan í gær og töluvert að sjá af loðnu. Við tókum eitt kast í nótt og annað í dag og frystum aflann um borð,” sagði Guðmundur Jónsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA í samtali við Fiskifréttir nú rétt fyrir hádegi í dag.
Tvö önnur vinnsluskip voru þá á miðunum, Hákon EA og Aðalsteinn Jónsson SU, en Hornafjarðarskipin Jóna Eðvalds og Ásgrímur Halldórsson voru farin í land með afla sinn til vinnslu.
Að sögn Guðmundar er hrognafylling loðnunnar 12% sem þýðir að hún er fryst fyrir Rússlandsmarkað en til þess að hefja frystingu á Japansmarkað þarf hlutfallið að vera komið upp í 15%.
Loðnan er á hraðri leið vestur með suðurströndinni.
Því má svo bæta við að 24 norsk loðnuskip eru komin inn í íslenska lögsögu úti fyrir Austfjörðum til þess að veiða kvó´ta sinn hér við land, en mega flest vera 25 að veiðum í senn. Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar komu norsku skipin í nótt og í morgun en þau hafa ekki tilkynnt neinn afla ennþá. Kvóti Norðmanna er 28 þúsund tonn, en þeim er óheimilt að veiða sunnan við línu sem dregin er út frá sunnanverðum Austfjörðum.