Loðnuvertíðin í Barentshafi er komin í fullan gang. Eftir að norsku loðnuskipin, sem voru að veiðum  í íslenskri lögsögu á dögunum, höfðu losað sig við afla sinn héldu þau norður í Barentshaf til veiða.

Loðnuskipið Mögsterfjord veiddi fyrstu loðnuna síðastliðinn föstudag og um helgina tilkynntu 17 skip um afla, samtals 14.300 tonn. Aflinn er að mestu seldur í manneldisvinnslu á svæðinu frá Möre norður í Honningsvåg.

Verðið fyrir loðnuaflann er á bilinu 1,85-2,00 norskar krónur á kílóið eða jafnvirði 40-44 íslenskra króna.

Á vef norsku síldarsölusamtakanna segir að mikið loðna sé á veiðisvæðinu og sé hún á hraðri ferð suðvestur á bóginn. Sá bátur sem síðast tilkynnti afla var 60 mílur frá Slettnes.

Einnig kemur fram að um miðja síðustu viku hafi verið orðrómur um að rússnesk loðnuskip væru í góðri veiði vestur af Thor Iversen banka.