Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson luku við loðnumælinguna umhverfis landið um miðnætti í nótt. Að sögn Sveins Sveinbjörnssonar leiðangursstjóra á fyrrnefnda skipinu var unnið úr gögnunum í nótt og niðurstöður sendar Hafrannsóknastofnun í morgun.

Ekki fékkst uppgefið hver niðurstaðan varð en hún verður kynnt opinberlega seinna í dag.

Bjarni Sæmundsson fann stóra og góða loðnu úti fyrir Austfjörðum. Þar var að líkindum sama loðnan á ferð og sú sem fannst úti fyrir Norðurlandi fyrir jólin. Þá fannst einnig loðna úti af Norðausturlandi en þar var sýnilega um að ræða annars konar loðnu.