Alls mældust 360 þúsund tonn af loðnu í nýafstöðnum loðnuleiðangri Hafró, þar af mældist hrygningarstofninn 355 þús. tonn. Aflaregla við loðnuveiðar byggir á að skilja 400 þúsund tonn eftir til hrygningar. Þetta er undir því magni og því leggur Hafrannsóknastofnunin til að loðnuveiðar verði ekki hafnar að svo stöddu.
Hér fer á eftir fréttatilkynning Hafrannsóknastofnunar, sem birt var á vef stofnunarinnar rétt í þessu:
,,Í nótt lauk mælingu rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar á loðnustofninum, en bæði skipin hafa verið við loðnumælingar frá 5. janúar. Aðstæður til mælinga hafa verið góðar frá því að skipin fóru frá Reykjavík, að undanskildu því að hafís hamlaði leit á töluvert stóru svæði vestur og norður af Vestfjörðum, sem kann að hafa haft áhrif á niðurstöður.
Útreikningar sýna að alls mældust 360 þúsund tonn af loðnu, þar af mældist hrygningarstofninn um 355 þúsund tonn. Út af Austfjörðum mældust 180 þús. tonn, allt hrygningarloðna. Út af Norðausturlandi mældust tæp 120 þús. tonn, mest hrygningarloðna. Út af vestanverðu Norðurlandi mældust 61 þúsund tonn, þar af 56 þúsund tonn af hrygningarloðnu.
Aflaregla við loðnuveiðar byggir á að skilja 400 þúsund tonn eftir til hrygningar. Ofangreindar mælingar á stærð hrygningarstofnsins eru undir því magni og því leggur Hafrannsóknastofnunin til að loðnuveiðar verði ekki hafnar að svo stöddu.
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson verður áfram við athuganir og mælingar á loðnustofninum ásamt leitarskipi sem væntanlegt er á miðin út af Norðurlandi á morgun, miðvikudag. "
Sjá nánar leiðalínur skipanna og dreifingu loðnunnar á vef Hafró, HÉR