Norðmenn ætla ekki að banna færeyskum skipum að landa síld í norskum höfnum í sumar fyrr en Færeyingar hafa náð því að veiða meira en hefðbundin hlutdeild þeirra í stofninum segir til um.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs. Hún segir ennfremur að Norðmenn muni gera sitt til að aðgerðir ESB gegn Færeyjum hafi tilætluð áhrif. Gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir að færeyskar síldarafurðir verði fluttar í gegnum Noreg til annarra landa.
Lisbeth Berg-Hansen minnir á að Norðmenn hafi þegar árið 2010 sett löndunarbann á makríl úr færeyskum skipum og íslenskum. Hún segist hafa átt ítarlegar viðræður við Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, undanfarin ár um makríldeiluna. „Ég fagna því að ESB hafi lagt bann á innflutning á síldar- og makrílafurðir frá Færeyjum og ég styð aðgerðir ESB heilshugar,“ segir Lisbeth Berg-Hansen.