,,Loðnan gengur hratt vestur með suðurströndinni. Fremsti hluti göngunnar er kominn vestur á Eyrarbakkabugt þar sem við erum nú,”  sagði Sigurbergur Hauksson skipstjóri á Berki NK frá Neskaupstað þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans skömmu fyrir hádegi í dag.

Að sögn Sigurbergs er hrognainnihald loðnunnar er komið í 18% sem þýðir að hún er frystingarhæf á Japansmarkað.

,,Það er erfitt að leggja mat á það hversu mikil loðna er á ferðinni í þessari fyrstu göngu. Það hafa verið brælur og því ekki verið hægt að fara út frá landinu að neinu viti til þess að skoða svæðið. Við erum nálægt landi, hér uppi á 15-20 föðmum,” sagði Sigurbergur, en auk Barkar NK voru Aðalsteinn Jónsson SU, Ásgrímur Halldórsson SF, Guðmundur VE og Vilhelm Þorsteinsson EA á miðunum.

Börkur NK landaði 1.200 tonnum af loðnu í Neskaupstað síðla í síðustu viku og fór aflinn til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.