Íslensk fiskútflutningsfyrirtæki eru í viðbragðsstöðu vegna frétta af því að Rússar kunni að banna innflutning á íslenskum fiski. Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood sagði í hádegisfréttum RÚV að fyrirtækið leituðu nýrra markaða enda Rússar þriðji stærsti kaupandi íslenskra fiskafurða.

Teitur staðfestir að viðskiptamenn Iceland Seafood í Rússlandi hafi verið í sambandi vegna málsins, enda hafi það verið með stærstu fréttum í rússneskum fjölmiðlum á miðvikudag. „Í kjölfar þess að ESB birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni 27. júlí, minnir mig, þar sem Ísland er tilgreint sem hluti af þeim þjóðum Evrópusambandsins og annarra sem hafa beitt Rússland viðskiptaþvingunum, þá hafa Rússar brugðist við. Samkvæmt fréttafulltrúa Pútíns í gær eru þeir að skoða hvernig þeir eiga að bregðast við - og þá væntanlega með gagnaðgerðum sem myndu ná til Íslands,“ segir Gylfi.

Dmitri Peskov fjölmiðlafulltrúi Pútíns lýsti því yfir að til greina kæmi að beita löndin á listanum viðskiptaþvingunum. „Það sem að gerist núna er að Rússarnir ráða ráðum sínum og ég hygg að ef Íslendingar bregðast ekki við með neinum hætti verði litið á það sem fullan stuðning við þessar refsiaðgerðir og þá verði sett á innflutningsbann.“

Sjá nánar á vef RÚV.