„Þetta er því miður afskaplega lokalegt. Við erum allir í lóðningu hérna sunnan við Nesið og magnið er frekar lítið,“ sagði Jóhannes Danner skipstjóri á Jónu Eðvalds SF þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans nú skömmu fyrir hádegi en þá voru þeir að dæla.

Í morgun fékk Ásgrímur Halldórsson 200 tonn og Vilhelm Þorsteinsson EA 150 tonn. Auk þeirra eru Aðalsteinn Jónsson SU, Sighvatur Bjarnason VE, Börkur NK og Álsey VE á miðunum og  Huginn VE og Kap þar skammt frá.

Jóhannes sagði að hvorki hefði frést af vestangöngu né annarri göngu sunnan að. Í gær var ekki veður til loðnuveiða en í dag er veiðiveður og á morgun er spáð fínu veðri. „Síðan kemur bræla á fimmtudag og alveg fram yfir helgi. Það kæmi mér ekki á óvart að þá myndi loðnan lemjast niður, það litla sem af henni er,“ sagði Jóhannes Danner.