Stefnt er að því að Víkingbátar ljúki endanlega smíði á tæplega 30 tonna línubát, Háey ÞH, og afhendi hann nýjum eiganda, GPG Seafood á Húsavík, innan tíðar. Báturinn er langt kominn í smíðum og ráðgert að hann verði sjósettur innan tveggja vikna. Hann er hannaður af Ráðgarði Skiparáðgjöf sem hannaði líka t.a.m. Huldu GK, þá í samstarfi við Trefjar.

Skráningarlengd bátsins er 13,2 metrar og breidd yfir byrðing 5,5 metrar. Hann verður með lestarplássi fyrir 62 stykki af 460 lítra körum. Aðalvélin er Yanmar, 628 kW.

Daníel Friðriksson, framkvæmdastjóri Ráðgarðs Skiparáðgjafar, segir þetta línubát undir 30 tonnum sem fellur undir krókaaflamarkskerfið. Báturinn er frábrugðinn öðrum bátum sem Ráðgarður Skiparáðgjöf hefur hannað fyrir íslenskan markað að því leyti að hliðarþilfarið á honum er lokað. Hann segir að á milliþilfarinu sé líka alltaf þróun á milli báta hvað varðar meðhöndlun á afla. Þá er standandi hæð í lestinni, rúmlega tveggja metra lofthæð, en Hulda GK var fyrsti báturinn frá Ráðgarði Skiparáðgjöf til að státa af slíkri lofthæð í lest. Þetta auðveldar til muna alla vinnu í lest þar sem menn þurfa ekki að bogra yfir körunum. Í bátnum eru átta kojur en reiknað er með fjórum í áhöfn.

Stærsti báturinn

Matthías Sveinsson hjá Víkingbátum segir bátinn langt kominn. Þetta sé stærsti báturinn sem Víkingbátar hafa smíðað. Smíðin hófst í maí 2020 og dálitlar tafir urðu á framgangi verksins vegna faraldursins. Nú er allt komið í bátinn og stefnt sé að því að sjósetja hann innan tveggja vikna í Reykjavík þar sem hann verður prófaður. Að prófunum loknum verður honum siglt norður.