Loðnuflotinn liggur í höfn eftir tveggja daga brælu og ekki er búist við að veiðar geti hafist á ný fyrr en í fyrsta lagi á morgun, að því er Sturla Einarsson, skipstjóri á Guðmundi VE, sagði í samtali við Fiskifréttir nú fyrir stundu.

,,Eyjaflotinn hefur ekki komist á sjó síðan á laugardaginn en síðustu skip komu hingað með afla aðfararnótt sunnudagsins. Engin veiði hefur verið hjá skipunum síðan á laugardagskvöldið en þá fékkst loðnan úti af Garðskaga,“ sagði Sturla.

Sturla sagði að ekki væri von á því að skipin héldu til veiða aftur fyrr en í fyrsta lagi um miðjan dag á morgun. Áður en veiðinni var hætt fannst töluvert af loðnu en nú er óvíst um framhaldið. ,,Loðnan var alveg komin að hrygningu, hrognafyllingin var 24-25% sem eru Japansgæði. Við erum hins vegar logandi hræddir um að tveggja daga suðvestan bræla hafi lamið loðnuna niður og að hún verði búin að hrygna þegar við komum aftur,“ sagði Sturla.