Áll er á hröðu undanhaldi í Evrópu og herjað er á hann úr mörgum áttum. Flestar hætturnar sem að honum steðja eru af manna völdum samkvæmt því sem segir í frétt á seafoodsource.com.
Náttúruleg búsvæði ála hafa verið eyðilögð, aukin mengun sjávar, ýmis konar hindranir á göngu ála til og frá hrygningarsvæðum, dælur og túrbínur og ekki síst ólöglegar veiðar og hækkun sjávarhita hafa haft slæm áhrif á viðkomu stofnsins.
Talið er að stofn evrópska álsins (Anguilla anguilla) hafi dregist saman um 95% á síðustu þrjátíu árum. Fyrir skömmu samþykkti Evrópuþingið tillögu þess efnis að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til að bjarga álnum og að sett verði lög fyrir maí 2014 sem tryggi lífsviðurværi hans.
Það sem af er þessu ári er talið að veiðst hafi um 20 milljónir af gleráli til áframeldis. Þar af veiddust fjórar milljónir á einni nóttu.
Bretar, Danir og Hollendingar neyta allra Evrópubúa mest af áli.