Loðnuvinnslan á Eskifirði hefur keypt Ebba-útgerð, sem gert hefur út línu- og netaveiðibátinn Ebba AK 37 frá Akranesi. Á Breiðdalsvík hefur Gullrún selt frá sér Austfirðing SU.
Frá þessu sagði á vef Skessuhorns og síðar á vef Austurfréttar. Gengið mun hafa verið frá kaupunum á Ebba fyrir mánuði síðan.
„Um leið var 1,5 tonn af þorskígildistonnum flutt á Ljósafell. Ebbi hafði á yfirstandandi fiskveiðiári um 160 þorskígildistonn, sem skiptust nokkurn vegin jafnt á milli þorsks og ýsu,“ segir í umfjöllun Austurfréttar.
Skessuhorn reiknar kvótaverðmætið á einn milljarð króna
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, að ekkert sé ákveðið um framtíð Ebba. Báturinn hafi verið smíðaður nýr fyrir útgerðina árið 2007. Hann hafi síðustu vikur legið í Hafnarfjarðarhöfn.
„Samkvæmt útreikningum Skessuhorns er verðmæti aflaheimildanna um einn milljarður króna. Í ársreikningi Ebba fyrir árið 2024 kemur fram að tekjur útgerðarinnar í fyrra námu 113 milljónum króna og hagnaður eftir skatta var um 30 milljónir,“ vitnar Austurfrétt til Skessuhorns.
Þá segir Austurfrétt að fleiri viðskipti hafi verið hjá austfirskum útgerðum að undanförnu. Báturinn Austfirðingur SU 205 hafi í lok júní verið seldur frá Gullrúnu á Breiðdalsvík til Steina á Hvammstanga. Báturinn hafi upphaflega verið smíðaður sem Dúddi Gísla GK árið 2004.
Nánar má lesa um málið á vef Skessuhorns og vef Austurfréttar.