Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, sem er móðurfélag Loðnuvinnslunnar hf., hefur fjárfest í Responsible Foods ehf. og setur upp vinnslu á Fáskrúðsfirði. Segja tíu ný störf skapast.
Sjávarfang er uppistaðan í nýrri tegund af hollunasli sem Holly Kristinsson hefur þróað og framleiðir undir merkjum fyrirtækisins Responsible Foods ehf.
Móðurfélag Loðnuvinnslunnar hf., Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur fjárfest í nýsköpunarfyrirtækinu Responsible Foods ehf. og er nú unnið að undirbúningi á uppsetningu á vinnslu á Fáskrúðsfirði sem mun vinna nasl úr sjávarfangi.
Responsible Foods rekur nú þegar vinnslu í Húsi Sjávarklasans í Reykjavík og framleiðir þar nasl úr íslenskum hráefnum. Með nýrri vinnslu á Fáskrúðsfirði tvöfaldast afkastageta félagsins.
„Félögin sjá mikil tækifæri í að setja upp vinnslu sem sérhæfir sig í nasli úr sjávarfangi á Fáskrúðsfirði, þar sem aðgengi að fyrsta flokks hráefni og þekkingu er til staðar. Við framleiðsluna á Fáskrúðsfirði munu skapast allt að 10 fjölbreytt störf á næstu árum, samfélaginu þar til hagsbóta,“ segir í tilkynningu.
Brautryðjandi tækni
Þar segir einnig að Responsible Foods noti „brautryðjandi tækni sem gerir það mögulegt að vinna og þurrka matvæli og önnur hráefni hraðar og við lægra hitastig en áður hefur verið hægt. Með þessari tækni er hægt að framleiða vörur sem eru með mjög hátt næringargildi og langt geymsluþol við stofuhita. Allar vörur fyrirtækisins byggja á íslensku hráefni. Með tækninni er hægt að vinna og þurrka sjávarfang á alveg nýjan máta sem engin önnur tækni getur leikið eftir. Hægt er að framleiða fiskinasl sem hefur enga fiskilykt en frammúrskarandi bragðgæði og opnar á alveg ný tækifæri fyrir þurrkaðar vörur úr íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum.“
Holly segir mikla eftirspurn vera eftir nasli sem er lítið unnið, hollt, bragðgott og unnið úr hágæða rekjanlegum náttúrulegum hráefnum.
„Eitt af markmiðum Responsible Foods er að umbylta því hvernig við framleiðum nasl úr sjávarfangi og nýta til þess verðminni hráefni til að búa til hágæða afurðir fyrir bæði innlendan og erlendan markað á sjálfbæran hátt,“ sagði hún í viðtali við Fiskifréttir fyrr á árinu.
Ný tækifæri
Hún sagði þá sérstaklega litið til hráefna sem falla til við flakavinnslu á hvítfiski og laxfiski en einnig uppsjávartegundir eins og til dæmis makríl.
„Hægt er að ná miklum verðmætum úr þessum hágæða hráefnum,“ segir hún og fullyrðir að með þeirri tækni og aðferðafræði sem Responsible Foods beitir sé „hægt að búa til afurðir sem eru engum líkar hvað varðar bragð, næringargildi og áferð og opnar á ný arðbær tækifæri fyrir íslenskt sjávarfang.“
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga bætist þannig við öflugan hóp fyrirtækja og einstaklinga sem hafa fjárfest í Responsible Foods, hér má nefna Mjólkursamsöluna og Lýsi hf. Spakur Finance leiddi þessa fjárfestingu.
Framleiðsla á nasli úr sjávarfangi skapar ný störf á Fáskrúðsfirði. MYND/Óðinn Magnason