Norsk skip hafa nú lokið við að veiða loðnukvóta sína á þessari vertíð og gott betur, en aflaheimildir þeirra voru 119.000 tonn. Á síðustu tveimur árum hefur flotanum ekki tekist að veiða nema um 75% úthlutaðs kvóta en þá voru aflaheimildirnar minni og þátttaka í veiðunum ekki eins mikil.

Samkvæmt tölum norska síldarsölusamlagsins var rúmum 62.000 tonnum landað í bræðslu en 57.000 tonnum í manneldisvinnslu. Sáralítill munur var á hráefnisverði eftir ráðstöfun aflans. Þannig voru að meðaltali greiddar 2,21 NOK fyrir kílóið til bræðslu en 2,22 NOK á kílóið til manneldisvinnslu. Í íslenskri mynt eru þetta 49-51 króna.

Loðnukvótanum norska var skipt þannig að 82.800 tonn komu í hlut hringnótabáta, 18.400 tonn í hlut svokallaðra strandnótabáta og 13.800 tonn gengu til togara. Auk hringnótabátanna tóku 142 strandnótabátar og 24 togarar þátt í veiðunum.

Frá þessu er skýrt í Fiskeribladet/Fiskaren í dag.