Loðnuveiði er nú loksins farin að glæðast eftir heldur dræma veiði frá því að veiðar hófust upp úr áramótum. Skip HB Granda og Síldarvinnslunnar fengu góðan afla um helgina.

Von var á Lundey NS til Vopnafjarðar nú upp úr hádeginu með um 1.000 tonna loðnuafla. ,,Við fengum tvö 350 tonna hol um helgina. Í fyrra skiptið toguðum við reyndar lengi en aflinn í seinna holinu fékkst á um fjórum til fimm tímum,“ segir Arnþór Hjörleifsson skipstjóri í samtali á heimasíðu HB Granda , en að sögn hans er loðnan af góðri stærð og lítið er um átu í henni.

,,Þetta er mun betra síli en við fengum í veiðiferðinni á undan. Samkvæmt mælingu er meðalstærðin um 45 stykki í kílóinu.“

Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, er Faxi RE á Vopnafirði og áhöfnin á Ingunni AK, sem var á miðunum, var að ljúka við síðasta hol veiðiferðarinnar nú um hádegisbilið.

Á v ef Síldarvinnslunnar kveður við sama tón. Loðnuveiðin var þokkaleg í gær enda þá loksins gott veður á miðunum. Skipin voru að fá góð hol inn á milli og fékk Börkur NK til dæmis 500 tonna hol í gærmorgun og tvö 200 tonna hol síðar um daginn. Afli Barkar var orðinn 1400 tonn síðast þegar fréttist en þá voru skipverjar að taka trollið.

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 600 tonn af loðnu en aflinn fékkst í tveimur holum í gær. Verið er að landa loðnunni til frystingar í fiskiðjuverinu.