Loðnuflotinn er nú kominn á fulla ferð á nýju eftir brælu helgarinnar. Hópur skipa er þessa stundina að veiðum í Faxaflóa og annar á svæðinu sunnan Reykjaness.
,,Við erum núna að dæla úr nótinni sunnan við Krísuvíkurbjarg,“ sagði Helgi Geir Valdimarsson skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans í morgun. ,,Við fengum dálítið af loðnu hérna í gærkvöldi og núna erum við með 500-600 tonn í nótinni. Það virðist vera loðna hér á töluvert stóru svæði og hún er alveg komin að hrygningu . Loðnan sem skipin eru að fá í Faxaflóanum þessa stundina á töluvert lengra eftir í hrygningu en sú sem við erum að veiða. Hún hefur ábyggilega komið upp úr kaldari sjó.“