Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð um loðnuveiðar Norðmanna í Barentshafi á komandi vertíð. Heimilt er að hefja veiðar 21. janúar næstkomandi en þá er talið að fullorðna loðnan hafi skilið sig frá ungloðnunni.

Heildarloðnukvótinn í Barentshafi verður 200.000 tonn að þessu sinni, þar af fá Norðmenn 119.000 tonn. Af norska kvótanum verða 4.000 tonn tekin frá og þeim ráðstafað sem rannsókna- og kennslukvóta, eins og það er orðað í frétt ráðuneytisins.

Norska kvótanum verður deilt út með þeim hætti að 82.800 tonn ganga til nótaflotans, 13.800 tonn til togskipa og 18.400 tonn til strandveiðiflotans.