Norðmenn hafa lítið veitt af loðnu í Barentshafi enn sem komið er og stærð loðnunnar veldur vonbrigðum að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins.

Í síðustu viku var tilkynnt um 15.500 tonna loðnuafla í Barentshafi og fékkst sá afli aðallega fyrri hluta vikunnar. Um miðja vikuna var veður erfitt en veiðar eru hafnar á ný og tveir bátar tilkynntu um afla á sunnudaginn.

Loðnan var ekki mjög stór og því fóru um 10.700 tonn til mjöl- og lýsisvinnslu. Verð á loðnu til bræðslu liggur á bilinu 1,45 krónur norskar á kíló (30,9 ISK) til báta sem lönduðu í Norður-Noregi en bátar sem sigldu til Danmerkur fengu 1,97 (42 ISK) krónur norskar á kíló. Greitt er 1,81-1,87 norskar krónur á kíló (38,6-39,8 ISK) fyrir loðnu til manneldisvinnslu.

Loðnan er á dreifðu svæði og um 30 skip eru nú á veiðum eða á leið á miðin.