,,Hér er búin að vera stöðug suðvestan bræla og haugasjór undanfarna sólarhringa. Bátarnir kasta annað slagið þegar mönnum finnst slá aðeins á ölduna. Síðustu daga hefur veðrið verið alveg á mörkum þess að hægt væri að vinna,“ sagði Guðmundur Smári Guðmundsson skipstjóri á Hugin VE þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann nú eftir hádegi í dag  en loðnuflotinn er á veiðum í Breiðafirði.

Guðmundur Smári sagði að við þessar aðstæður væri erfitt að skoða sig um og gera sér grein fyrir því á hve stóru svæði loðnan væri. Þar að auki væri hún á grunnum hraunbotni og því erfitt að sjá hana. Skipin veiddu úr litlum blettum þegar færi gæfist. Aðstæður hafa gert það að verkum að margir hafa rifið nætur og slitið teina.

,,Það er ljóst að nú fer að styttast í það að loðnan leggist á botninn til að hrygna. Það hlýtur að gerast á næstu dögum,“ sagði Guðmundur Smári. Huginn VE var að ljúka veiðum þegar rætt var við skipstjórann og síðan lá leiðin austur á Vopnafjörð til löndunar.  Skipið er búið með eigin loðnukvóta og veiðir nú fyrir HB Granda.