„Við fórum nú þessa hefðbundnu loðnuleit fyrst, en svo komum við í loðnu um 25 mílur suðaustur af Kolbeinsey. Mér fannst vera svolítið að sjá á nokkuð stóru svæði. Sérstaklega þarna suðureftir, en við vorum í stanslausu lóði á milli 20 og 30 mílur í suður. Mér fannst þetta nokkuð gott að sjá", sagði Daði Þorsteinsson skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni SU í viðtali í hádegisfréttum RÚV .

Aðalsteinn Jónsson SU var í hópi fjögurra skipa sem héldu til loðnuleitar norður fyrir land í lok síðustu viku, leituðu þar um helgina og komu í land í gær.

Leiðindaveður var á miðunum og gátu skipin því ekki kastað. Daði segir að þeir bíði þar til veðrið gengur niður og haldi norður fyrir land þegar líður á vikuna.