,,Það er komið lokastand á veiðarnar. Mest öll loðnan er hrygnd og við erum byrjaðir að veiða karlinn. Allir þeir sem enn eru á veiðum eru í lokatúr að klára síðustu kílóin. Þessu lýkur í dag eða á morgun,” sagði Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki NK í samtali við Fiskifréttir nú í morgun.

Skipið var þá statt norðarlega í Faxaflóa ásamt fjórum öðrum loðnuskipum. Auk þess voru nokkur skip að veiðum við Garðskagann og Reykjanesið.

Skip HB Granda luku loðnuveiðum í gær, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins . Kvóti fyrirtækisins var rúmlega 61 þúsund tonn eða sá mesti síðan á vertíðinni 2005 en þá nam kvótinn um 122 þúsund tonnum. Minnstur var kvótinn á árinu 2009 en þá fengu skipin aðeins leyfi til að veiða um 3.000 tonn af loðnu. Hrognavinnsla og -frysting stendur enn yfir á Akranesi og Vopnafirði.