Hafrannsóknastofnun segir að haldið verði að nýju til loðnumælinga eftir helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu:
„Haldið verður aftur af stað til loðnumælinga nk. mánudag 5. febrúar en síðustu loðnumælingaleit lauk þann 23. janúar sl. Fyrirhugað var að rannsóknarskipið Árni Friðriksson RE 200 færi til mælinga ásamt veiðiskipunum Ásgrími Halldórsyni og Polar Ammassak. Við botnskoðun á Árna í slipp í Hafnarfirði nú í vikunni kom hins vegar fram olíuleki með driföxli sem gera þarf við, m.a. til að koma í veg fyrir mengun, og getur hann því ekki tekið þátt í verkefninu.
Öflug samvinna útgerðaraðila og Hafrannsóknastofnunar
Við þessari stöðu var brugðist á skjótan hátt af útgerðaraðilum því nú er verið að gera loðnuskipið Heimaey VE klárt í verkefnið í stað Árna en Heimaey hafði verið á kolmunaveiðum. Útgerðir uppsjávarveiðiskipa munu bera kostnað af tveimur skipum og Hafrannsóknastofnun af einu. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar verða um borð í öllum skipunum og stjórna mælingunum.
Fyrirhugað rannsóknarsvæði nær frá Víkurál út af Vestfjörðum og þaðan til austurs að Héraðsdjúpi út af Austfjörðum en yfirferðina mun þurfa að aðlaga að útbreiðslu loðnunnar og aðgengi að hafsvæðum t.d. vegna hafíss,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.