Síðasta loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar, í samstarfi við útgerðina, er lokið. Framhaldið verður metið á morgun.
Þetta kemur fram í frétt Austurfréttar.
„Þessari viðamiklu leit er lokið án jákvæðrar niðurstöðu,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun.
Íslensku skipin sem tóku þátt í fjórðu umferð loðnuleitarinnar á þessu ári komu til hafnar í gærkvöldi. Þeirra á meðal var Polar Amaroq, skip grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar.
Í samtali við Austurfrétt sagði Þorsteinn að niðurstöðurnar væru aðeins í samræmi við það sem áður hefði komið fram. Ekki er því hægt að gefa út loðnuveiðikvóta miðað við ástandið.
„Við höfum gert allt sem í mannlegu valdi er og miðað við þá þekkingu sem er til staðar til að skoða þetta,“ segir Þorsteinn.
Hann segir að möguleikar á frekari leit verði ræddir á samráðsfundi á morgun. Helst sé hægt að horfa eftir vesturgöngu loðnunnar. Slík leit yrði hins vegar án þátttöku rannsóknaskipa stofnunarinnar sem eru á leið í togararall.