Auk rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar munu veiðiskipin Polar Ammassak, Heimaey VE og Barði NK taka þátt í loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar sem hefst á morgun, fimmtudag.
Að sögn Guðmundar Óskarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, hafa orðið dálitlar tafir á að leiðangurinn hefjist. Árni Friðriksson hafi verið í viðgerð og illa hafi viðrað til að kvarða skipið. Það verði gert í Hvalfirði á morgun og skipið fari síðan beint vestur með landinu í leiðangurinn.
Polar Ammassak, Barði og Heimaey hafi hins vegar verið kvörðuð fyrir austan land á mánudag. Fyrrnefndu skipin tvö muni hefja leiðangurinn fyrir austan á fimmtudag og Heimaey slást í hópinn þar á föstudag.
Ekkert sást á suðursvæðum
Guðmundur segir engar fréttir hafa borist af loðnu eftir jólin. Á sunnudag og á mánudag voru skipin að koma af kolmunnaveiðum og Guðmundur segir að þau hafi verið fengin til að sigla eftir leiðarlínum á landleiðinni til að kanna syðstu svæðin fyrir austan og leita að loðnu.
„Við erum þannig byrjuð að þreifa fyrir okkur með þessum hætti til að sjá hvort loðnan sé komin þarna sunnarlega í kaldsjónum fyrir austan land,“ segir Guðmundur. Skipin hafi siglt með tíu mílur á milli sín og fylgst með bergmálsmælunum og verið með þá á upptöku.
„Þeir hafa ekki séð neitt enn þá þar, sem róar okkur aðeins; það er gott að hún sé ekki komin þangað. Annars væri ástæða fyrir okkur að reyna að drífa okkur út strax.“
Gæti tekið viku
Eins og venjulega þarf að fylgjast með hafís í tengslum við loðnuleiðangur. „Ísinn er náttúrlega vestan við landið og það er spurning hvað hann gerir núna í vindáttunum sem eru fram undan,“ segir Guðmundur. Óhagstæðar vindáttir hafi verið ríkjandi undanfarna daga en von sé á að það breytist síðari hluta vikunnar.
„Ef við erum með fjögur skip þá gæti þetta verið kannski vika með siglingum fram og til baka en auðvitað er það háð veðri,“ segir Guðmundur. Að því loknu muni menn gefa sér þann tíma sem þurfi til að greina gögnin sem fást. Auðvitað sé alltaf mikil tímapressa í þessum efnum en hann viti ekki hversu miklar væntingar menn hafi að þessu sinni. „Ég skal ekki segja til um það.“
Þess má geta að gamla rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er ekki í myndinni þar sem áhöfn skipsins er á leið til Spánar eftir helgi til að fara í prófanir á nýja skipinu Þórunni Þórðardóttur. Guðmundur segir enn gert ráð fyrir að Þórunn verði afhent um næstu mánaðamót. Mikilvægt sé að ekki verði tafir á afhendingunni, til dæmis þurfi að fara í mikilvægar sjómælingar í febrúar.