Eftir að vestanganga loðnunnar fannst í fyrradag úti af Breiðafirði lyftist brúnin á loðnusjómönnum enda var útlitið orðið nokkuð svart dagana þar á undan þegar lítið sem ekkert var orðið að sjá af loðnu. Í gær var bræla á miðunum og ekkert veiðiveður en í dag gátu skipin athafnað sig á ný.

„Við höfum verið að krafsa í vestangöngunni frá því í morgun. Það hefur verið einhver slítingur í dag en lóðningarnar eru frekar þunnar. Það hefur verið erfitt við þetta að eiga, mikill straumur við Öndverðarnesið og brælukaldi hér dýpra en þetta er svona að laga sig til núna,“ sagði Helgi Valdimarsson skipstjóri á Ísleifi VE þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans skömmu fyrir klukkan fimm síðdegis. Þeir voru þá búnir á fá 450 tonn í dag í tveimur köstum. Hrognafylling loðnunnar er um 25% að sögn Helga.

- Eru menn ekki vongóðir um að útgefinn loðnukvóti náist?

„Jú, jú, ég held að flestir séu búnir eða á síðustu tonnunum eins og við. Ég held að það sé alveg öruggt að kvótinn klárist,“ sagði Helgi Valdimarsson.